Battle Wounds

Ég er gríðarlega þakklát Ernu Hrund ( http://trendnet.is/reykjavikfashionjournal/ ) fyrir að byrja umræðuna um slit og óraunhæfa fullkomnunaráráttu sem þeim tengjast oft. 

Það krefst hugrekki að birta myndir af “harmonikkumaga” (eins og einhver orðar það í kommentum), en í raun ætti þess ekki að þurfa. 
Við erum svo gegnsýrð af heimi sem leggur áherslu á fullkomnun, engar bólur mega sjást, engin appelsínuhúð og guð forði okkur frá því að viðra slitin fyrir allra augum. 
Hvernig á að vera hægt að lifa í þannig heimi?!

Ég á margar dásamlega fallegar vinkonur sem eiga börn og auðvitað breytist líkaminn við það. Þær eru ekki minna fallegar fyrir vikið! Alveg sama á hvaða hátt þær hafa breyst.

Ég hef ekki verið svo lánsöm að koma barni í þennan heim (enn sem komið er 😉 ), en ég þroskaðist mjög hratt og snemma líkamlega. Eiginlega bara yfir nótt. Ég var undrandi 11 ára stúlka morguninn sem ég vaknaði og skildi ekki neitt í rauðum línum sem höfðu myndast á lærum, mjöðmum og brjóstum. Ég vissi ekki hvað þetta var, en ég man að ég hugsaði – ég hef klórað mig svona svakalega í nótt. 

Stuttu fyrir þetta, eða e-ð í kringum þetta leiti, höfðu vinkonur mínar verið að gaspra yfir því að mamma einnar væri slitin og hvað það væri ógeðslegt, hún væri nú líka soltið feit. 
-þegar ég setti þetta í samhengi varð ég logandi hrædd, ætti ég að vera svona ALLTAF? Ég hafði ekki kjark í að spyrja en ég man að ég lét mömmu vita, sigri hrósandi, ef liturinn á slitunum lýstist. 

Það versta við þetta allt var samt stríðnin, líklega yrði það kallað einelti í dag. 
Ég man t.d. að á fermingardaginn minn fékk ég nafnlaust sms af netinu þar sem mér var bent á hversu ógeðsleg ég væri vegna þess að ég væri slitin. 
– stríðnin var að því er virtist á þessum tíma óendanleg. Það var mjög sárt.

 

Í dag hinsvegar, 15 árum seinna, hef ég náð algörri sátt. Svona bara er ég! Ég hef bara þennan eina líkama, ég ætla að vera stolt af honum. 
Það fær enginn annar að ráða því hvernig ég lít á mig, engin nafnlaus sms, engir sem hvíslast og benda eða stara í sturtu! Enginn! 
Ég met mig ekki að verðleikum eftir því hvað öðrum finnst, svo einfalt er það.

Mikið vildi ég óska þess að ég hefði lesið pistil einsog þennan sem Erna Hrund birti þegar ég var 11 ára. 
Mikið vildi ég að umræðan hefði verið þá um að þetta væri bara allt í himnalagi.

Ég kalla slitin mín í dag stríðs-ör, battle wounds. Þau gera mig sterkari. Þau minna mig á það sem var og að ég komst í gegnum það, sterk og hnarreist.

Kærar þakkir Erna Hrund!
Hér má lesa pistilinn hennar: http://trendnet.is/reykjavikfashionjournal/thad-er-engin-eins/

Image

Verum öll nákvæmlega einsog við erum og verum stolt af því!

 

ást og friður

 

– Elín 

One thought on “Battle Wounds

Leave a comment